Jóhanna F. Hrafnfjörð fæddist að Hrafnsfjarðareyri, Norður-Ísafjarðarsýslu 29. nóvember árið 1925. Hún lést þann 15. ágúst 2011. Ljósmæðrapróf tók hún frá Ljósmæðraskóla Íslands 30. september 1947. Hún starfaði sem ljósmóðir víða um land lengst af í Reykjavík. Jóhanna hlaut styrk til Noregsfarar þar sem hún starfaði samtals í þrjú ár. Þegar heim var komið 1958 stofnaði hún fæðingarheimili í Kópavogi og rak það farsællega til ársins 1969. Jóhanna mat mikils það tækifæri sem hún fékk til að starfa erlendis og var það m.a. kveikjan að þeirri hugmynd hennar að stofna minningarsjóð til að styrkja ljósmæður til náms.
Umsóknareyðublað má nálgast hér.
Stofnaðild, varsla o.fl.
1. gr.
Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Jóhönnu F. Hrafnfjörð. Hér eftir nefndur Minningarsjóðurinn. Minningarsjóðurinn er stofnaður að ósk Jóhönnu F. Hrafnfjörð ljósmóður. Arfleiddi hún Ljósmæðrafélag Íslands að söluandvirði íbúðar sinnar. Minningarsjóðurinn er eign Ljósmæðrafélag Íslands og í vörslu stjórnar Ljósmæðrafélags Íslands, Borgartúni 6, Reykjavík. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.
Tilgangur og markmið sjóðsins
2. gr.
Markmið Minningarsjóðsins er að styrkja ljósmæður til sí- og endurmenntunar. Tilgangur og markmið minningarsjóðsins er í samræmi við vilja arfláta.
Stofnframlag minningarsjóðsins og tekjur
3. gr.
Stofnframlag minningarsjóðsins er söluandvirði íbúðar Jóhönnu að Ásvallagötu 25 í Reykjavík að upphæð 19.569.479 kr. Ekki má skerða stofnfé sjóðsins. Tekjur sjóðsins eru vaxtatekjur af stofnfé og öðru fé sem sjóðnum kann að áskotnast, gjafir og áheit sem sjóðnum kunna að berast og tekjur sem stjórn sjóðsins kann að afla honum á annan hátt.
Stjórn sjóðsins
4. gr.
Stjórn minningarsjóðsins er í höndum sjóðanefndar Ljósmæðrafélags Íslands sem er skipuð 5 ljósmæðrum. Sjóðanefnd skal skipuð af aðalfundi Ljósmæðrafélags Íslands til tveggja ára í senn og í henni sitja þrír kjarafélagar LMFÍ auk formanns og gjaldkera félagsins.
Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Stjórnarmenn skipta með sér verkum.
Einfaldur meirihluti ræður ákvörðunum innan sjóðanefndar. Ef nefndarmaður á hagsmuni að gæta við afgreiðslu umsóknar ber honum að víkja af fundi meðan á umsókn er afgreidd.
Stjórn minningarsjóðsins heldur fundargerðir um starf sitt og skilar um það skýrslu á aðalfundi félagsins ár hvert.
Stjórn minningarsjóðsins skal setja úthlutunarreglur og nánari starfsreglur um úthlutanir, s.s. einstakar styrkfjárhæðir, umsóknarfresti og ferli umsókna, allt í samræmi við skipulagsskrá þessa. Fjöldi styrkja sem veittur er árlega skal taka mið af stöðu sjóðsins.
Reglur um úthlutun styrkja úr sjóðnum skal endurskoða á tveggja ára fresti og samþykkja á aðalfundi Ljósmæðrafélags Íslands.
Seta í sjóðanefnd er ólaunuð.
Styrkveitingar úr sjóðnum
5. gr.
Stjórn sjóðsins úthlutar styrkjum í samræmi við úthlutunarreglur einu sinni á ári á afmælisdegi Jóhönnu F. Hrafnfjörð, 29. nóvember ár hvert.
Ávöxtun fjár og ársreikningar
6. gr.
Stjórn Ljósmæðrafélags Íslands annast ávöxtun sjóðsins og skal hún vera sem hagkvæmust á hverjum tíma.
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningur minningarsjóðsins skal endurskoðaður og birtur með sama hætti og aðrir reikningar í vörslu Ljósmæðrafélags Íslands.
Skráning sjóðsins, breytingar á skipulagsskrá o.fl.
7. gr.
Heimilt er að breyta skipulagsskrá þessari, en til þess þarf samþykki aðalfundar Ljósmæðrafélags Íslands. Minningarsjóðinn skal ekki leggja niður nema ríka nauðsyn beri til að mati stjórnarinnar. Hrein eign hans skal þá renna til Ljósmæðrafélags Íslands.
Staðfesting
8. gr.
Skipulagsskrá minningarsjóðs Jóhönnu Hrafnfjörð Ljósmæðrafélags Íslands staðfestist hér með.
Reykjavík 20.apríl 2013