Fulltrúar LMFÍ á NJF
Fulltrúi úr stjórn:
Forseti NJF frá 2008: Hildur Kristjánsdóttir \ 863 1410
Sögulegt yfirlit
Norðurlandaþing ljósmæðra
Um norðurlandaþing ljósmæðra í Reykjavík 2004
Sögulegt yfirlit
Samstarf milli ljósmæðra á Norðurlöndum hefur verið til alveg frá 17 og 18 öld þegar fyrstu námsbækur ljósmæðra á norðurlandatungumálum voru gefnar út. Það er þó ekki fyrr en 1950 sem þetta samstarf verður formlegt í gegnum Norðurlandasamtök ljósmæðra.
Tillaga um að stofna Norðurlandasamtök ljósmæðra var fyrst lögð fram á ljósmæðraráðstefnu sem haldin var í Esbjerg 1949 af þáverandi formanni danska ljósmæðrafélagsins; Valborgu Christhopersen. Hugmyndin hlaut strax góðar undirtektir og það er svo föstudaginn 20 janúar 1950, sem fulltrúar frá ljósmæðrafélaganna í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð koma saman í Stokkhólmi í boði sænska ljósmæðrafélagsins, til að ræða stofnun Norðurlandasamtaka ljósmæðra.
Á fundinn mættu;
Valborg Christophersen, frá danska ljósmæðrafélaginu
Enni Sormas frá finnska ljósmæðrafélaginu
Anna Hagevold frá norska ljósmæðrafélaginu,
Fanny Greiff frá norsku ljósmæðrasamtökunum og
Ellen Erup frá sænska ljósmæðrafélaginu.
Jóhanna Friðriksdóttir, frá ljósmæðrafélagi Íslands og Sofie Anthoniussen frá samtökum ljósmæðra í Færeyjum gátu ekki setið fundinn en höfðu sent tilkynningu um að þær hefðu móttekið erindið og í ljósi þeirra upplýsinga sem þær hefðu undir höndum, væri það þeim ánægja að styðja stofnun þessara samtaka.
Ellen Erup stjórnaði fundinum og Valborg Christophersen var ritari.
Fundurinn samþykkti stofnun Norðurlandasamtaka ljósmæðra og var valið nafnið Nordiskt Jordmoderförbund sem síðar varð Nordisk Jordmorförbund (skammstafað NJF). Unnið var að gerð laga fyrir samtökin og fjallað um þau á fundinum. Í þeim segir meðal annars að hvert land eigi tvo fulltrúa í stjórn, sem báðir hafa atkvæðisrétt. Forseti samtakanna er valinn þegar Norðurlandaþing er haldið, en ritari er valinn á hverjum stjórnarfundi.
Samþykkt var að leggja til að starfsemi samtakanna færi aðallega fram með því að halda stjórnarfundi árlega og skiptast félögin á um að vera gestgjafar þeirra og Norðurlandaþing allra ljósmæðra sem skyldi haldið að minnsta kosti fjórða hvert ár. Lagt var til að væri þess nokkur kostur ætti þingið ekki að bera upp á sama ár og aðrar alþjóðlegar ráðstefnur ljósmæðra.. Á Norðurlandaþingum hafa allir þátttakendur tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.
Ákveðið var að á næsta stjórnarfundi skyldi hvert félag/land gefa ítarlega skýrslu um stöðu mála í sínu landi varðandi nám ljósmæðra og uppbyggingu stéttarfélags þeirra. Einnig skyldi á þeim fundi ræða möguleika ljósmæðra á því að starfa á hinum Norðurlöndunum.
Haldnir eru stjórnarfundir árlega og á hvert land tvo fulltrúa á þeim. Ljósmæðrafélög landanna skiptast á um að halda stjórnarfundi og eins og áður sagði hefur Ljósmæðrafélag Íslands haldi þessa fundi reglulega . Norðurlandasamtökin hafa frá stofnun verið virk í að hafa áhrif á bætt gæði í þjónustu ljósmæðra og hafa fulltrúar landanna stutt við hvert annað með ráðum og dáð í gegnum árin.
Sú hefð hefur skapast að forseti samtakanna stýrir fundi og er talsmaður samtakanna milli funda. Á fundunum er einnig fastur dagskrárliður þar sem hvert land flytur skýrslu frá sínu landi. Þannig eru félög hvers lands upplýst um stöðu mála og hefur stjórnin oftsinnis sent stjórnvöldum greinargerðir mótmæli og/eða stuðningsyfirlýsingar við einstök mál óski viðkomandi land eftir því eins og við á hverju sinni. Samtökin hafa einnig starfað að málefnum kvenna á barneignaraldri og að málefnum ljósmæðra með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og Alþjóðasamtökum ljósmæðra (ICM). Starfsemi Alþjóðasamtaka ljósmæðra lá niðri meðan seinni heimstyrjöldin geisaði og var endurvakin að tilstuðlan NJF.
NJF hefur beitt sér fyrir bættri menntun ljósmæðra og framhaldsmenntun þeim til handa. Ennfremur hafa samtökin hvatt til og stuðlað að auknu samstarfi aðila sem starfa með og fyrir ljósmæður og var til dæmis virkt í að koma á samstarfi ljósmæðrakennara á Norðurlöndum með því að hvetja til þess að þeir sameinuðust innan NORDPLUS samtakanna.
Einnig hafa samtökin fylgst vandlega með starfsaðstöðu ljósmæðra og lagaumgjörð þeirra í hverju landi.
Ljósmæður á Norðurlöndunum bera barmnælu sem er keimlík í því að á þeim öllum er tré lífsins og að auki einhver önnur sérkenni stéttarinnar í hverju landi fyrir sig og er það í samræmi við samþykkt stjórnarfundar NJF frá 1951 (sjá; Hildur Kristjánsdóttir, 1989. ,,UM MERKI LJÓSMÆÐRAFÉLAGS ÍSLANDS”).
Ljósmæðrafélag Íslands hefur frá upphafi verið virkt í stjórn samtakanna og haldið stjórnarfundi hér á landi fyrst árið 1965, en þá var Norðurlandaþing ljósmæðra haldið á Íslandi í fyrsta sinn. Norðurlandaráðstefna NJF var svo næst haldin hér á landi árið 1983, og núna síðast 2004.
Reykjavík í febrúar 2006
Hildur Kristjánsdóttir
Norðurlandaþing ljósmæðra
Upphafið
Fyrsta Norðurlandaþing ljósmæðra var haldið í Lundi 2-6 júlí 1950 og tóku um 300 ljósmæður þátt í því. Langflestar komu frá Svíþjóð eða rúmlega 200 ljósmæður. Tuttugu komu frá Danmörku, 40 frá Finnlandi, 20 frá Noregi og ein frá hvoru landanna Íslandi og Færeyjum. Ellen Erup setti þingið og lýsti stofnun samtakanna. Í opnunarræðu sinni minnti hún ljósmæður á að þó ekki hefði verið stofnuð formleg samtök ljósmæðra á Norðurlöndum áður, hefðu ljósmæður þessara landa alltaf fylgst með hver annarri og deilt gleði og sorgum. Með stofnun þessara samtaka væri þó verið að styrkja tengslin enn betur. Á þinginu voru tekin fyrir lög samtakanna og þau samþykkt eins og þau voru lögð fram Samþykkt voru ný lög samtakanna 1975 og aftur 2004 (vef tenging; lög Norðurlandasamtaka ljósmæðra – NJF stadgar)..
Eins og áður hefur komið fram var Ellen Erup kjörin forseti og Valborg Christophersen ritari. Næstu tvo daga þingsins var áfram rætt um samtökin og fléttað inn fræðsluerindum meðal annars um; ,,fyrirbyggjandi mæðravernd og verkjameðferð við fæðingar.
Kvöldin voru svo nýtt til að hnýta böndin fastar með hátíðakvöldverði fyrsta kvöldið og skemmtidagskrá kvöldið eftir.
Alls hafa í nafni NFJ verið haldin 16 Norðurlandaþing sem smátt og smátt hafa þróast æ meir í að verða ráðstefnur um fagleg efni og rannsóknir ljósmæðra og í töflunni hér fyrir neðan má sjá hvaða land hefur séð um þingið/ráðstefnuna hverju sinni og hver megin þemu þeirra hafa verið.
Land |
ár |
Þema |
Svíþjóð |
1950 |
Stofnun NJF og lög samtakanna |
Finnland |
1954 |
Dagleg störf ljósmæðra á Norðurlöndunum og skipulag barneignarþjónustunnar |
Danmörk |
1958 |
Nám ljósmæðra og skipulag |
Noregur |
1962 |
Menntun ljósmæðra |
Island |
1965 |
Mæðravernd og foreldrafræðsla |
Svíþjóð |
1968 |
,,Manneskjan og samvinna/samspil” (Människan och samverkan) með áherslu á siðfræði, ljósmæður sem kennarar, samvinna mæðraverndar og sjúkrahúsa, mannfjöldaþróun og ljósmæðranám. |
Finnland |
1971 |
Mæðravernd og forvarnir m.a. tannvernd og undirbúningur fyrir fæðingu. |
Danmörk |
1975 |
25 ára afmæli NJF. Sambærileg ljósmæðramenntun á öllum norðurlöndunum. Ljósameðferð við gulu, fósturgreiningar og meðfæddir gallar á útlimum. |
Noregur |
1979 |
Barnið fyrir og eftir fæðingu. Alþjóðlegt ár barnsins. |
Island |
1983 |
Hlutverk ljósmæðra á Norðurlöndum |
Svíþjóð |
1986 |
Ljósmæður, konur og samfélag í 100 ár |
Finnland |
1989 |
Höfuð, hönd og hjarta |
Danmörk |
1992 |
Fagleg þróun ljósmæðra – engin framtíð án hennar |
Noregur |
1996 |
Var líka ICM ráðstefna. The art and science of midwifery gives birth to a better future |
Svíþjóð |
2000 |
50 ára afmæli NJF. |
Ísland
|
2004 |
Mothers of light, - Gentle warriors from past to present.
Midwifery care in the Nordic Countries.
Sjá nánar grein Ástþóru D. Kristinsdóttur, ráðstefnustjóra hér fyrir neðan. Birt með góðfúslegu leyfi LMFÍ og Ljósmæðrablaðsins. |
Finnland |
2007 |
Framtíðin í höndum ljósmæðra. Ráðstefnan verður haldin í Turku í Finnlandi dagana 4-6 mái 2007. Sjá nánar á vef ráðstefnunnar; http://www.nordiskjordemorkongress2007.com/ |
Reykjavík í febrúar 2006
Hildur Kristjánsdóttir
Um Norðurlandaráðstefnu ljósmæðra í Reykjavík 2004
Ágætu ljósmæður.
Eins og allar vita var haldin hér á landi í maí sl. stór ráðstefna á vegum Ljósmæðrafélags Íslands. Nordisk Jordmor Kongress, Mothers of Light: Gentle warriors from past to present. Undirbúningur ráðstefnunnar var mikill. Strax árið 2000 skipaði þáverandi formaður LMFÍ Ástþóra Kristinsdóttir undirbúningsnefnd fyrir ráðstefnuna. Í þeirri nefnd voru ásamt undirritaðri Hildur Kristjánsdóttir, Ólöf Ásta Ólafsdóttir, Margrét Hallgrímsson, Hrefna Einarsdóttir, Sigfríður Inga Karlsdóttir og Sigríður Sía Jónsdóttir – síðar bættist svo við núverandi formaður félagsins Ólafía Margrét Guðmundsdóttir. Árið 2002 baðst Hrefna Einarsdóttir undan nefndarsetu.
Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn 20.nóvember 2000. Þá var strax farið að vinna við að finna þema fyrir ráðstefnuna og hvenær hún skyldi haldin þ.e. finna dagsetningu. Einnig var farið að vinna í að finna hönnuð til að búa til merki (logo) fyrir ráðstefnuna. Fljótlega var ákveðið að dagarnir skyldu vera 2 þ.e. 11/2 fyrir fræðslu og 1 fyrir skemmtan. Leitað var eftir tilboðum til ráðstefnuskrifstofa og fyrir valinu var að skipta við Íslandsfundi þar sem Þórunn og Unnur ráða ríkjum.
Ákveðið var að gera ráð fyrir 3-500 gestum og settir niður dagarnir 20-22.maí 2004. Hana nú þá var það komið og mikið frá.! Eftir miklar vangaveltur í nefndinni var ákveðið að tungumál ráðstefnunnar yrði enska.
Helga Birgisdóttir ljósmóðir og listakona var fengin til að taka að sér að gera merki fyrir ráðstefnuna og gerði hún það með sóma. Valið var merki í samvinnu við nefndina. Merkið var síðan notað á alla pappíra sem tengdust ráðstefnunni á einhvern hátt. Ákveðið var jafnframt að Helga tæki að sér að gera hluti með merki ráðstefnunnar sem selt yrði á ráðstefnunni.
Verndari ráðstefnunnar var Frú Vigdís Finnbogadóttir forseti.
Verkaskipti í nefndinni urðu þannig að Ástþóra formaður nefndarinnar og Hildur tóku að sér að sjá um samskipti við Íslandsfundi. Hildur, Ólöf Ásta , Margrét , Sigfríður Inga og Sigríður Sía tóku að sér að vera í abstracta nefnd og fóru þær yfir alla innsenda pappíra sem og sýningarplaköt (postera). Útbúin var heimasíða fyrir ráðstefnuna og hún var auglýst í öllum Norðurlöndunum, einnig var auglýst í blöðum ljósmæðrafélaganna á Norðurlöndum og eins fengu allar ljósmæður sendar sérstakt auglýsingablað..
Eftir mjög mjög marga fundi ráðstefnunefndar og með Íslandsfundum varð til dagskrá og skipulag sem við ljósmæður vorum mjög ánægðar með.
Mjög margir komu að undirbúningi ráðstefnunnar með einhverjum hætti, nefndin vann auðvitað mjög mikið og óeigingjarnt starf. Þórdís Klara Ágústsdóttir ljósmóðir gerði og kom með frumsamda skemmtun ásamt Birnu Ólafsdóttur ljósmóður á Galakvöldið sem var haldið á Broadway og þótti takast með afbrigðum vel.
Svanborg Egilsdóttir ljósmóðir á Selfossi tók að sér að gera listmuni fyrir þá íslensku fyrirlesara sem voru með “keynote” fyrirlestur.
Guðrún Böðvarsdóttir ljósmóðir prjónaði lopapeysur fyrir erlendu gestafyrirlesarana.
Ágústa Jóhannsdóttir ljósmóðir stjórnaði fjöldasöng á Galakvöldinu.
Borgarstjóri Þórólfur Árnasson bauð til fordrykks í ráðhúsinu á undan Galakvöldinu.
Heilbrigðisráðherra Hr. Jón Kristjánsson opnaði ráðstefnuna á Nordica Hotel
Ráðstefnuna sóttu 450 ljósmæður af öllum Norðurlöndum og virtist vera almenn ánægja með hana og alla skipulagningu. Ráðstefnugestir voru ánægðir og létu óspart af því vita.
Gaman er að geta þess líka að Þórunn og Unnur sem héldu utan um ráðstefnuna (Íslandsfundir) fannst ráðstefnan okkar alveg frábær og sögðust aldrei hafa séð fólk skemmta sér svona vel eins og á Galakvöldinu okkar. Já ljósmæður kunna sko að skemmta sér. J
Undirrituð vil nota tækifærið hér og þakka frábært og skemmtilegt samstarf í nefndinni sem og öllum sem komu með einhverjum hætti að verkefninu. Síðast en ekki síst vil ég þakka Þórunni og Unni hjá Íslandsfundum fyrir frábært starf. Þær eru frábærar.
Ljósmæðrakveðja
Ástþóra Kristinsdóttir ljósmóðir.
Heimild: Ljósmæðrablaðið, nóvember, 2004