Lög og reglur LMFÍ

HEITI FÉLAGSINS

MARKMIÐ FÉLAGSINS

AÐILD AÐ FÉLAGINU OG ÚRSÖGN

AÐALFUNDUR

STJÓRN FÉLAGSINS

ATKVÆÐAGREIÐSLA

FÉLAGSFUNDIR

FJÁRMÁL

NEFNDIR OG RÁÐ

DEILDIR

TRÚNAÐARMENN

ÚTGÁFA

LAGABREYTINGAR


 

Lög samþykkt á aðalfundi Ljósmæðrafélags Íslands 20. mars 2021.

 1.       Grein

HEITI FÉLAGSINS

Félagið heitir Ljósmæðrafélag Íslands, skammstafað LMFÍ og er stéttar- og fagfélag ljósmæðra og ljósmæðranema. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði er landið allt. Félagið á aðild að Bandalagi háskólamanna (BHM) og sjóðum BHM.

 


2.       Grein

MARKMIÐ FÉLAGSINS

2.1. Að efla ljósmæðrastéttina, og að hvetja ljósmæður til þess að viðhalda hæfni sinni og þekkingu og stuðla að þróun ljósmóðurfræði sem fræðigreinar.

2.2. Að glæða félagslegan áhuga og samvinnu ljósmæðra bæði innanlands og í erlendu samstarfi.

2.3. Að gæta hagsmuna og réttinda ljósmæðra varðandi störf þeirra og kjör og koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart stjórnvöldum og öðrum.

2.4. Að annast samninga um kaup og kjör kjarafélaga.

2.5. Að gæta virðingar ljósmæðrastéttarinnar.

2.6. Að taka þátt í stefnumótun heilbrigðismála sem varða ljósmæðrafagið og efla samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir

 


3.       Grein

AÐILD AÐ FÉLAGINU OG ÚRSÖGN

3.1. Allar ljósmæður sem hafa ljósmæðraleyfi á Íslandi ásamt nemum í ljósmóðurfræði á Íslandi hafa rétt til aðildar að félaginu. Sækja þarf um aðild skriflega til LMFÍ.

3.2. Kjarafélagi er sú ljósmóðir eða ljósmóðurnemi í klínísku starfsnámi sem greiðir ákveðið hlutfall af tekjum sínum til félagsins og er bæði kjara- og fagfélagi. Kjarafélagi hefur málfrelsi, atkvæðisrétt og kjörgengi í allar nefndir og stjórn félagsins.

3.3. Fagfélagi eru sú ljósmóðir eða ljósmóðurnemi sem ekki er kjarafélagi í LMFÍ. Fagfélagar greiða árlegt fagfélagsgjald. Fagfélagi hefur málfrelsi, tillögurétt og kjörgengi í allar nefndir nema kjararáð og stjórn félagsins.

3.4. Stjórn félagsins getur gert að heiðursfélaga ljósmóður eða hvern þann velunnara félagsins sem það telur að sýna beri sérstaka viðurkenningu. Félagsmenn geta komið með tillögu að tilnefningu til stjórnar.

3.5. Aðalfundur ákvarðar félags- og fagfélagsgjöld. Heiðursfélagar og lífeyrisþegar eru undanþegnir félagsgjöldum.

3.6. Ljósmóður ber að sýna ábyrgð í starfi og gæta virðingar ljósmæðrastarfsins og ljósmæðrastéttarinnar. Ljósmæðrum ber að starfa eftir lögum félagsins, siðareglum og ákvörðunum aðalfunda.

3.7. Heimilt er að víkja kjarafélögum úr félaginu standi þeir ekki í skilum með full iðgjöld í 3 mánuði í röð. Ákvörðun félagsins um brottvikningu er send félagsmanni skriflega.


4.       Grein

AÐALFUNDUR

4.1. Aðalfund skal halda í félaginu eigi síðar en á vormánuðum ár hvert. Dagsetning aðalfundar skal tilkynnt með sex vikna fyrirvara á heimasíðu félagsins. Almenna reglan er sú að halda aðalfund sem staðfund, en heimilt er að halda aðalfund sem fjarfund eða sem blöndu af fjar- og staðfundi. Fara kosningar þá fram með rafrænum hætti.

4.1.1. Fundarboð skal berast með tryggilegum hætti með minnst viku fyrirvara.

4.1.2. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn félagsins minnst fjórum vikum fyrir aðalfund og skulu sendar út með aðalfundargögnum. Formlegar athugasemdir og tillögur til breytinga verða bornar undir á aðalfundi.

4.1.3. Hið sama gildir um önnur mál sem félagsmenn óska eftir að tekin verði fyrir á aðalfundi. Mál sem ekki er tilgreint á útsendri dagskrá aðalfundar verður aðeins tekið fyrir sé meirihluti fundarmanna því samþykkur. 

4.1.4. Viku fyrir aðalfund hið skemmsta skulu fundargögn vera aðgengileg félagsmönnum á rafrænu formi á vefsvæði félagsins, þar með talið eru skýrsla stjórnar, reikningar félagsins og sjóða á vegum þess, skýrslur endurskoðanda og skoðunarmanna og áætlanir um starfsemi og fjárhag félagsins næsta starfsár.

4.1.5. Framboð til stjórnar og annarra trúnaðarstarfa skal liggja fyrir sé þess kostur.

4.1.6. Aðalfundur telst ekki lögmætur nema boðað sé til hans á löglegan hátt.

4.2. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

4.2.1. Formaður setur aðalfund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.

4.2.2. Formaður félagsins flytur skýrslu stjórnar.

4.2.3. Skýrslur nefnda, ráða og fagdeilda.

4.2.4. Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins, yfirfarna af endurskoðanda og skoðunarmönnum félagsins. Fjárhagsáætlun lögð fram til kynningar og ákvörðun tekin um félagsgjald.

4.2.5. Lagabreytingar.

4.2.6. Formannskosning.

4.2.7. Stjórnarkosning.

4.2.8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.

4.2.9. Nefndakosning - kosning í trúnaðarstörf.

4.2.10. Önnur mál.

4.3. Á aðalfundi skal bóka sérstaklega allar samþykktir og ákvarðanir. Fundaritarar ganga frá fundargerð að loknum aðalfundi. Fundargerð aðalfundar skal birt á vefsvæði félagsins ekki seinna en fjórum vikum eftir fundinn. Veittur er tveggja vikna frestur til athugasemda. Að þeim fresti liðnum telst fundargerð samþykkt og skal hún ásamt athugasemdum birt á vefsvæði félagsins.

4.4. Aukaaðalfund skal halda ef stjórn álítur þess þörf eða ef 1/3 atkvæðisbærra félagsmanna krefst þess. Hann skal boðaður með sama hætti og aðalfundur og fundarefni tilgreint í fundarboði.

 


5.       Grein

STJÓRN FÉLAGSINS

5.1. Í aðalstjórn LMFÍ skulu sitja sex ljósmæður auk formanns. Á aðalfundi skal kjósa varaformann, gjaldkera, aðaltrúnaðarmann og þrjá meðstjórnendur. Hver stjórnarmaður utan formaður félagsins er kosin til tveggja ára í senn. Á fyrsta fundi eftir aðalfund velur stjórn úr hópi meðstjórnenda ritara, vararitara og varagjaldkera. Heimilt er að sitja í sama embætti í stjórn eða nefndum á vegum félagsins þrjú kjörtímabil í röð.

5.2. Formaður er launaður starfsmaður félagsins. Formann félagsins skal kjósa til þriggja ára í senn og skal framboð til formanns berast félaginu fjórum vikum fyrir boðaðan aðalfund. Formanni er heimilt að sitja þrjú kjörtímabil samfleytt. Formaður LMFÍ er jafnframt formaður kjararáðs.

5.3. Varaformaður gegnir skyldum formanns í forföllum hans.

5.4. Stjórnin skipuleggur stjórnarfundi eftir þörfum hverju sinni og boðar formaður til þeirra. Fundir stjórnar eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna er mættur og stjórnarmenn hafa verið boðaðir til fundar með lögmætum hætti.

5.5. Stjórn félagsins fylgir eftir lögum þess og samþykktum. Stjórn félagsins fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins á milli aðalfunda.

5.6. Stjórn skal hafa yfirsýn yfir daglegan rekstur félagsins og ber ábyrgð á öllum framkvæmdum sem gerðar eru í nafni þess.

5.7. Stjórn fylgist með störfum deilda og nefnda sem starfræktar eru innan félagsins.

5.8. Stjórn félagsins, skipuleggur fræðslufundi, námskeið og ráðstefnur á vegum félagsins.

5.9. Erindi er varða siðareglur félagsins berist til aðaltrúnaðarmanns sem leggur málið fram á stjórnarfundi. Stjórn LMFÍ metur hvort þörf er á umsögn um málið eða frekari aðgerðum. Ef einhver af meðlimum stjórnar telst vanhæfur til að fjalla um málið ber honum að víkja af fundi á meðan málið er tekið fyrir.

5.10. Stjórn tekur ákvörðun um ráðningar starfsmanna til félagsins og semur um ráðningakjör við þá.

5.11. Stjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og fela honum daglegan rekstur skrifstofu félagsins. Heimilt er að ráða formann félagsins sem framkvæmdastjóra.

5.12. Hlutverk stjórnar er að framfylgja markmiðum LMFÍ og vinna eftir lögum félagsins og stefnumótun sem sett hefur verið fram og samþykkt á aðalfundi.

5.13. Vantraust á stjórn LMFÍ eða formann félagsins má bera upp ef 1/3 kjarafélaga hafa skrifað undir áskorun þess efnis. Fundur skal þá boðaður með sama hætti og aðalfundur og fundarefni tilgreint í fundarboði.

5.14. Fylgja skal fundarsköpum LMFÍ á öllum fundum félagsins sem fundarstjóri les í upphafi fundar hverju sinn.


6.       Grein

ATKVÆÐAGREIÐSLA

6.1. Atkvæðisrétt á aðalfundi og félagsfundum hafa kjarafélagar sem eru skuldlausir við félagið. Skal stjórn hafa tiltæk gögn um félagsmenn sem ekki hafa gert upp sín félagsgjöld í upphafi fundar.

6.2. Allar kosningar eru bindandi og fari fram skriflega eða rafrænt, séu fleiri en einn í framboði til embættis. Falli atkvæði jöfn skal kosið að nýju og fáist þá eigi úrslit ræður hlutkesti. Atkvæði greidd á staðnum og atkvæði greidd með fjarfundabúnaði hafa sama vægi. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum nema annað sé tekið fram.

6.3. Kjörnefnd skal sjá um undirbúning og framkvæmd allra kosninga.

6.4. Í ágreiningsmálum á stjórnarfundum ræður meirihluti stjórnar, ef hlutir falla jafnt þá ræður atkvæði formanns úrslitum. Stjórn er heimilt að láta fara fram rafræna kosningu meðal félagsmanna um mál sem hún telur brýn og varða mikilvæga hagsmuni.


7.       Grein

FÉLAGSFUNDIR 

7.1. Félagsfund skal halda þegar stjórn þykir ástæða til eða ef minnst 10% félagsmanna óska þess skriflega og tilgreina fundarefni. Skal þá boðað til fundar með minnst viku fyrirvara. Ef nauðsyn krefur má þó boða félagsfund með 24 klukkustunda fyrirvara.

7.2. Stjórn félagsins tilnefnir alþjóðafulltrúa sem ásamt formanni (eða staðgengli hans) sér um alþjóðlegt samstarf sem félagið kann að taka þátt í hverju sinni. Alþjóðafulltrúi og formaður skili greinargerð um erlent samstarf félagsins til stjórnar. Enn fremur geri þeir grein fyrir  starfinu í Ljósmæðrablaðinu, vefsíðu félagsins eða á aðalfundi.


8.       Grein

FJÁRMÁL

8.1. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningar félagsins, nefnda þess og sjóða skulu yfirfarnir af löggildum endurskoðanda og tveimur skoðunarmönnum sem aðalfundur kýs úr röðum félagsmanna til eins árs í senn. Gögn skulu vera aðgengileg skoðunarmönnum minnst þremur vikum fyrir aðalfund

8.2. Heildarendurskoðun reikninga félagsins skal fara fram á fimm ára fresti.

 


9.       Grein

NEFNDIR OG RÁР

9.1. Innan LMFÍ skulu starfa eftirfarandi nefndir:

9.1.1. Kjararáð. Formaður félagsins er formaður kjararáðs. Auk hans eiga varaformaður og aðaltrúnaðarmaður sæti í kjararáði ásamt öðrum stjórnarmeðlimum og trúnaðarmönnum eftir þörfum.

9.1.2. Ritnefnd, sbr. handbók

9.1.3. Kjörnefnd, sbr. handbók

9.1.4. Sjóðanefnd, sbr. handbók

9.2. Heimilt er að koma á fót nefndum um einstök málefni eða málaflokka ef stjórn metur svo. Stjórn skipar þá í störf nefnda. Sama gildir um samtök og ráð sem LMFÍ er heimilað að tilnefna fulltrúa í.

9.3. Nefndir innan LMFÍ starfa á grundvelli laga félagsins. Nefndum er óheimilt að stofna til fjárhagsskuldbindinga nema með heimild stjórnar LMFÍ.


10.   Grein

DEILDIR

10.1. Heimilt er að stofna deildir innan félagsins ef stjórn metur svo. Æskilegt er að deildirnar sendi einn fulltrúa á aðalfund er greini frá starfsemi sinnar deildar eða sendi greinargerð til stjórnar eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Sé það ekki gert er litið svo á að starfsemi deildar liggi niðri.

10.2. Deildir félagsins geta sótt um fjárframlög frá félaginu til starfsemi sinnar.

10.3. Deildir innan LMFÍ starfa á grundvelli laga félagsins. Deildum er óheimilt að stofna til fjárhagsskuldbindinga nema með heimild stjórnar LMFÍ

 


11.   Grein

TRÚNAÐARMENN

11.1. Stjórn skal beita sér fyrir því að trúnaðarmenn séu kjörnir á tveggja ára fresti sbr. V. kafla laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, I. kafla laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, eða því sem samið kann að vera um í kjarasamningum.

11.2. Í trúnaðarmannaráði skulu eiga sæti allir trúnaðarmenn LMFÍ. Hlutverk trúnaðarmannaráðs er að undirbúa kröfugerð, kjarasamninga og stofnanasamninga í samvinnu við kjararáð og vera stjórn til ráðgjafar um ýmis mál.


12.   Grein

ÚTGÁFA

12.1. Allt efni sem birtist á prenti í nafni félagsins, í rafrænum miðlum, ljósvakamiðlum, á ráðstefnum o.fl. auk minjagripa telst vera útgáfa félagsins. Stjórn hefur umsjón með og ber ábyrgð á útgáfu efnis í nafni félagsins

12.2. LMFÍ gefur út Ljósmæðrablaðið og greiðir kostnað af því. Skal senda blaðið öllum félagsmönnum og er áskriftarverð þess innifalið í félagsgjaldi. Stjórn LMFÍ ræður ritstjóra sem sér um útgáfu Ljósmæðrablaðsins í samvinnu við ritnefnd. Ritnefnd skal kjósa á aðalfundi félagsins.

12.3. Merki LMFÍ er skráð í vörumerkjaskrá og er félagið eigandi þess. Notkun á merkinu er óheimil án leyfis stjórnar.

 


13.   Grein

LAGABREYTINGAR

13.1. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og skulu breytingatillögur hafa borist félagsmönnum með aðalfundarboði minnst viku fyrir fund. Lagabreytingar eru því aðeins lögmætar að 2/3 fundarmanna greiði þeim atkvæði.

13.2. Lög þessi öðlast gildi á aðalfundi Ljósmæðrafélags Íslands 20. mars 2021. Um leið verða lög Ljósmæðrafélags Íslands frá 24. mars 2012 úr gildi numin.

Uppfært 24. mars 2021