7.Hs.Suðurnesja

Í umdæminu er ein heilbrigðisstofnun, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) sem starfrækir heilsugæslustöðvar í Grindavík og í Reykjanesbæ. Fæðingardeild HSS er í Reykjanesbæ og var henni breytt úr C1 í D1 fæðingarstað með lokun skurðstofu stofnunarinnar í maí árið 2010.

Meðgönguvernd

Meðgönguvernd er veitt af ljósmæðrum á heilsugæslusviði HSS og þegar þörf er á, er haft samráð við fæðinga- og kvensjúkdómalækni stofnunarinnar. Auk þess eru haldin fjölsótt foreldrafræðslunámskeið á vegum HSS.

Fæðingarhjálp

Á fæðingardeild umdæmisins er ljósmóðir á vakt allan sólahringinn. Deildin sinnir göngudeildar- og símaþjónustu sem flokkar og sinnir því sem viðbúnaður stofnunarinnar veldur og vísar ella á viðeigandi þjónustustig. Deildin sinnti áður sjúklingum eftir kvensjúkdómaaðgerðir en í kjölfar lokunar skurðstofu hefur það lagst af. Fæðingardeild HSS hefur hæst hlutfall vatnsfæðinga á landinu, eða 27% árið 2009 og stefnir í hærra hlutfall árið 2010.

Sængurlega

Konur sem fæða á HSS geta valið um að liggja sængurlegu eða þiggja heimaþjónustu ljósmóður sem aukist hefur mikið síðustu ár. Þær konur sem einhverra hluta vegna geta ekki fætt á HSS og þurfa að fæða á LSH eiga þess kost að liggja sængurlegu á HSS eða þiggja heimaþjónust ljósmóður.Ljósmæður sinna ungbarnavernd ásamt hjúkrunarfræðingum. Einnig er starfandi brjóstagjafaráðgjafi á heilsugæslunni sem veitir sérhæfða ráðgjöf við brjóstagjöf.

Við HSS vinnur meðferðateymi ljósmóður, sálfræðings og félagsráðgjafa sem veitir konum og fjölskyldum sem eiga í erfiðleikum þjónustu. Meginhlutverk ljósmóður í þessu teymi er að sinna konum og fjöskyldum sem kljást við fæðingarhræðslu eða eiga erfiða fæðingareynslu að baki. Að jafnaði er boðið upp á 3-5 stuðningsviðtöl þar sem hugrænni atferlismeðferð (HAM), slökun og öðrum úrræðum er beitt. Á einu og hálfu ári hafa rúmlega 40 konur/pör notið þessarar þjónustu.

 

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja