Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) starfrækir átta heilsugæslustöðvar og eru fæðingarstaðirnir tveir utan heimafæðinga, það er HSu Selfossi og Vestmannaeyjum. Þar bjóða ljósmæður einnig uppá skimanir fyrir leghálskrabbameini.
Meðgönguvernd
Ljósmæður veita meðgönguvernd á sjö heilsugæslustöðvum HSu, á Hellu, Hveragerði, Kirkjubæjarklaustri, Laugarási, Vík, Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum. Samráð er haft við fæðingarlækna ef þörf er á. Ómskoðanir á meðgöngu eru gerðar á HSu á Selfossi.
Fæðingarhjálp
Fæðingardeildir HSu eru tvær, á Selfossi og í Vestmannaeyjum. Þar geta allar hraustar konur í eðlilegri meðgöngu fætt, en konur með þekkta áhættuþætti eða vandamál á meðgöngu fæða á LSH. Einnig þær sem vilja eiga kost á mænurótardeyfingu í fæðingu.
Fæðingardeildirnar sinna göngudeildar- og símaþjónustu allan sólarhringinn þar sem vandamálum sem upp kunna að koma í barneignarferlinu er sinnt eða vísað á viðeigandi þjónustustig. Ljósmæður þar eru ráðgefandi fyrir samstarfsfólk þegar þörf er á. Í Vestmannaeyjum sinna ljósmæður einnig móttöku fyrir fórnarlömb nauðgana.
Á Selfossi er aðgerðardagur vegna kvensjúkdóma einu sinni í viku og sinna ljósmæður aðgerðarsjúklingum fyrir og eftir aðgerð. Einnig sinna þær bakvakt á öldrunardeildum sjúkrahússins á nóttunni vegna mikils niðurskurðar á stofnuninni.
Sængurlega
Á HSu Selfossi er sængurlega í boði fyrir konur sem ekki hafa aðgang að heimaþjónustu ljósmæðra í sinni heimabyggð og fyrir konur og/eða börn sem þurfa innlagnar við. Þær konur sem geta ekki fætt á HSu og þurfa að fæða á LSH eiga þess kost að liggja sængurlegu á HSu Selfossi eða þiggja heimaþjónustu ljósmóður til jafns á við þær konur sem fæða á HSu. Í Vestmannaeyjum er einnig í boði að liggja sængurlegu eða þiggja heimaþjónustu ljósmóður.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands