6.Suðurland

Þrjár heilbrigðisstofnanir eru reknar í umdæminu, Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu), Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja (HSV) og Heilbrigðisstofnun Suðausturlands (HSSA). Meðgönguvernd er veitt á níu heilsugæslustöðum í umdæminu og fæðingarstaðir eru þrír utan heimafæðinga.

Meðgönguvernd

Allar þrjár heilbrigðisstofnanir umdæmisins veita meðgönguvernd. HSU rekur sjö heilsugæslustöðvar þar sem boðið er upp á meðgönguvernd hjá ljósmóður, nema í Vík,þar sinna hjúkrunarfræðingur og heimilislæknir meðgönguvernd. Ómskoðanir á meðgöngu eru gerðar á HSu á Selfossi.

Fæðingarhjálp

Fæðingardeild HSu sinnir landföstum hluta heilbrigðisumdæmisins. Þjónustustig deildarinnar breyttist á árinu 2010 úr C1 í D111 með afnámi bakvaktar skurðstofu og því flytjast allar áhættufæðingar á LSH eftir breytingarnar. Fæðingardeild HSV sinnir Vestmannaeyjum og Fæðingardeild HSSA Hornafirði.

Fæðingardeildirnar sinna allar göngudeildar- og símaþjónustu allan sólarhringinn þar sem vandamálum sem upp kunna að koma í barneignarferlinu er sinnt eða vísað á viðeigandi þjónustustig. Ljósmæður þar eru ráðgefandi fyrir samstarfsfólk þegar þörf er á. Í Vestmannaeyjum og á Höfn sinna ljósmæður einnig móttöku fyrir fórnarlömb nauðgana.

Á Selfossi er aðgerðardagur vegna kvensjúkdóma einu sinni í viku og sinna ljósmæður aðgerðarsjúklingum fyrir og eftir aðgerð. Í Vestmannaeyjum sinnir ljósmóðir bakvakt fyrir skurðstofu með skurðhjúkrunarfræðingi. Ljósmæður á HSu sinna bakvakt á öldrunardeildum sjúkrahússins á nóttunni vegna mikils niðurskurðar á stofnuninni.

Sængurlega

Á HSu er sængurlega í boði fyrir konur sem ekki hafa aðgang að heimaþjónustu ljósmæðra í sinni heimabyggð og fyrir konur og/eða börn sem þurfa innlagnar við. Þær konur sem geta ekki fætt á HSu og þurfa að fæða á LSH eiga þess kost að liggja sængurlegu á HSu eða þiggja heimaþjónustu ljósmóður til jafns á við þær konur sem fæða á HSu.

Á Höfn og í Vestmannaeyjum er hvort tveggja í boði; sængurlega á stofnun og heimaþjónusta ljósmóður. Á Höfn sinnir ljósmóðir einnig ungbarnavernd til 18 mánaða aldurs auk þess sem hún setur upp getnaðarvarnarlykkjur og fjarlægir.

 

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Heilbrigðisstofnun Vestmanneyja

Heilbrigðisstofnun Suðausturlands