Austurland

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) starfrækir átta heilsugæslustöðvar í umdæminu og þrjú sel út frá þeim. Heilsugæslustöðvar eru staðsettar í þéttbýliskjörnum á Vopnafirði, Borgarfirði eystri (sel), Seyðisfirði, Egilsstöðum, Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði (sel), Breiðdalsvík (sel) og Djúpavogi. Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað er eini fæðingarstaðurinn í heilbrigðisumdæminu og jafnframt eini staðurinn þar sem sólarhringsbakvakt ljósmóður er til staðar. Umdæmið er mjög dreifbýlt og samgöngur milli staða liggja oftar en ekki yfir fjallvegi, sem geta verið erfiðir yfirferðar, sérstaklega að vetri til.

Meðgönguvernd

Ljósmæður starfa á sjö heilsugæslustöðvum umdæmisins og veita þar meðgönguvernd, það er á Djúpavogi, Reyðarfirði, Eskifirði, Neskaupstað, Egilstöðum, Seyðisfirði og Vopnafirði. Í umdæminu fá langflestar fjölskyldur þjónustu á meðgöngu hjá ljósmæðrum eingöngu eða í samvinnu við HSN eða LSH. Sónarskoðanir eru framkvæmdar í Neskaupstað, á Egilstöðum og Seyðisfirði.

Þegar um áhættumeðgöngu er að ræða, er haft samráð við HSN eða LSH og meðgönguvernd skipulögð í samráði við konurnar, fagfólk í héraði og fæðingalækna á ofangreindum stöðum. Eins hafa fæðinga- og kvensjúkdómalæknar frá HSN, móttöku á heilsugæslustöðvunum á Egilsstöðum og í Neskaupstað átta sinnum ári og er konum vísað þangað til samráðs eftir þörfum.

Alls eru um 5-10% kvenna vísað árlega á stofnun með hærra þjónustustig til samráðs eða aðgerða. Bráðaflutningur kvenna á meðgöngu með sjúkraflugi til HSN eða LSH er ekki algengur, eða um 4-5 sjúkraflug á ári. Algengasta orsök þess er hótandi fyrirburafæðing en einnig blæðingar á meðgöngu og alvarleg meðgöngueitrun.

Fæðingarhjálp

Eins og áður hefur komið fram er eina fæðingardeild umdæmisins staðsett á Umdæmissjúkrahúsinu í Neskaupstað. Þar starfa að jafnaði fjórar ljósmæður sem sinna innlögnum vegna vandamála á meðgöngu, fæðingarhjálp, sængurlegu og aðstoð við brjóstagjafavandamál. Flestar konur sem fæða í umdæminu koma úr tveimur stærstu sveitarfélögum umdæmisins, Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði, eða um 80-90%. Um það bil 15-30% kvenna velja að fara út fyrir heilbrigðisumdæmið til að fæða börn sín, en þetta hlutfall er mjög breytilegt milli ára. Eins hafa konur frá Vopnafirði og norðar, sótt fæðingarhjálp til Akureyrar undanfarin ár, enda um svipað langan veg að fara.

Konum með áhættuþætti er vísað til fæðingar á LSH eða HSN Akureyri, um 5-10 %.
Konur sem eiga ekki þann valkost að fæða nærri heimili sínu þurfa sjálfar að standa straum af kostnaði við það, þ.m.t. húsnæði, launalaus leyfi maka og ferðalög maka og barna. Á Akureyri og í Neskaupstað er hægt að fá leigðar íbúðir ýmist á vegum sjúkrahúsanna eða félagasamtaka, þær eru hins vegar umsetnar og getur þurft að leigja sumarbústað eða íbúð hjá stéttarfélögum eða setjast að hjá ættingjum, í allt að mánaðartíma í kring um fæðinguna, með tilheyrandi raski á fjölskyldulífi.

Sængurlega

Á HSA hefur öllum konum staðið til boða að liggja sængurlegu eftir fæðingu, þó hefur heimaþjónusta ljósmæðra aukist undanfarin ár. Þar sem heimaþjónusta ljósmæðra er í boði hafa árlega um 25-30% kvenna nýtt sér hana. Á flestum heilsugæslustöðvum umdæmisins sinna ljósmæður einnig ungbarnavernd. Endurinnlagnir mæðra og barna eru mjög sjaldgæfar, algengast er að nýburar séu innlagðir til ljósameðferðar vegna nýburagulu, 3-5 tilfelli á ári.

Heilbrigðisstofnun Austurlands