Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) starfrækir 6 starfstöðvar og 12 sel út frá þeim. HSN Blönduósi með sel á Skagaströnd, HSN Sauðárkróki með sel á Hofsósi, HSN Akureyri með sel á Grenivík og í Grímsey, HSN Dalvík með sel í Hrísey, HSN Fjallabyggð með starfsemi á Siglufirði og í Ólafsfirði, HSN Húsavík með sel á Laugum, Reykjahlíð, Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn. Fæðingardeild umdæmisins er á HSN Akureyri og er hún stærsta fæðingardeild landsins utan höfuðborgarsvæðisins.
Meðgönguvernd
Meðgönguvernd er veitt af ljósmæðrum á öllum starfsstöðvum umdæmisins, það er á Akureyri, Blönduósi, Dalvík, Fjallabyggð, Húsavík og á Sauðárkróki. Á HSN Akureyri er veitt meðgönguvernd fyrir konur í áhættumeðgöngu, þar eru gerðar ómskoðanir og sérhæfðar fósturskimanir, auk þess sem boðið er uppá foreldrafræðslunámskeið.
Fæðingarhjálp
Norðurlandsumdæmi er stórt og dreifbýlt, vegalengdir eru miklar og yfir fjallvegi að fara. Aðeins einn fæðingarstaður eru í umdæminu, á Sjúkrahúsinu á Akureyri, fyrir utan heimafæðingar sem eru nokkrar á ári. Árið 2010 var sólarhringsþjónusta ljósmóður lögð niður á Sauðárkróki og verða konur þar því að sækja fæðingarþjónustu til Akureyrar utan dagvinnutíma. Rúmlega þriðjungur kvenna sem fæða á Akureyri eru þaðan, aðrar hafa um mislangan veg að fara. Að sumarlagi koma flestar konur í eigin bíl þegar sótt byrjar en á veturna koma konur fyrir fæðinguna til dvalar á Akureyri. Því fylgir oft mikil röskun á fjölskyldulífi og þarf maki jafnvel að nýta feðraorlof sitt til þessa eða taka frí frá vinnu með tilheyrandi tekjumissi. Óöryggi skapast hjá konum þar sem erfitt er fyrir þær að meta hvenær tími sé kominn til að leggjast í ferðalög til Akureyrar.
Sængurlega
Sængurkonum stendur til boða að dvelja sængurlegu á fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri. Mismunandi er hversu langan tíma konur dvelja á fæðingadeildinni eftir fæðingu, en margar nýta möguleikann á heimaþjónustu ljósmæðra. Í sumum tilvikum er einnig hægt að bjóða upp á sængurlegu eða heimaþjónustu ljósmæðra í heimabyggð.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands
Sjúkrahúsið á Akureyri