Vestfirðir

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVEST) veitir meðgönguvernd á Ísafirði og á Patreksfjörð kemur ljósmóðir einu sinni í mánuði. HVEST á Ísafirði er eini fæðingarstaðurinn í umdæminu.

Meðgönguvernd

Ljósmóðir á Ísafirði veitir meðgönguvernd á vegum HVEST. Til hennar koma konur frá Ísafirði, Þingeyri, Suðureyri og Flateyri ásamt sveitum í kring. Þar eru stöku sinnum gerðar ómskoðanir, þegar ljósmóðir með þar til gerða menntun kemur á Ísafjörð til að gera sónarskoðanir. Vegna samgöngubóta síðustu ára eru samgöngur tiltölulega greiðar milli þessara þéttbýla. Ljósmóðir er á bakvakt á Ísafirði allan sólarhringinn.

Suðurfirðir Vestfjarða hafa verið ljósmóðurlausir í fjölda ára og hafa læknar veitt meðgönguvernd þar. Nú er hins vegar búið að ráða ljósmóður sem kemur á Patreksfjörð einu sinni í mánuði.

Fæðingarhjálp

Ljósmóðir á Ísafirði sinnir fæðandi konum og skurðlæknir er á vakt allan sólarhringinn. Konur úr heimabyggð fæða á Ísafirði og yfir sumartímann sækja sumar konur af sunnanverðum Vestfjörðum fæðingarhjálp þangað. En vegna ófærðar er ekki hægt að treysta á samgöngur til Ísafjarðar frá suðurfjörðum yfir vetrartímann og nærtækasta barneignarþjónusta m.t.t. samgangna því í Reykjavík í 400 km fjarlægð. Ekki er óalgengt að konur þurfi að flytja búferlum í nokkrar vikur og bíða fæðingar í leiguhúsnæði eða inni á ættingjum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er bæði mjög kostnaðarsamt, tekjuskerðing fyrir maka og mikið rask á fjölskyldulífi, skólagöngu barna og fleira mætti telja.
Enginn fæðingalæknir er starfandi í umdæminu og því sjá ljósmæður um sérhæfða þjónustu við barnshafandi konur í samráði við lækna staðarins og Kvenna- og barnasvið LSH. Komi til sjúkraflugs til Reykjavíkur er sjúkraflugvélin staðsett á Akureyri, mönnuð heilbrigðisstarfsfólki og ljósmóður þaðan.

Sængurlega

Flestar konur útskrifast snemma heim eftir fæðingu og þiggja heimaþjónustu ljósmóður. Einnig sinnir ljósmóðir ungbarnavernd með heimavitjunum fyrsta mánuðinn eftir fæðingu. Sængurlega kvenna af sunnanverðum Vestfjörðum fer fram fjærri heimili þeirra, gjarnan á höfuðborgarsvæðinu; inni á heimilum ættingja, í leiguhúsnæði eða á sjúkrastofnun.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða