Vesturland

Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) veitir meðgönguvernd á átta heilsugæslustöðvum í umdæminu. Innan hennar er fæðingardeild á Akranesi þar sem meðal annars eru gerðar ómskoðanir og sérhæfð þjónusta fæðinga- og kvensjúkdómalæknis er í boði. 

Meðgönguvernd

Ljósmæður veita meðgönguvernd á sex af átta heilsugæslustöðvum HVE, auk þess að bjóða uppá skimanir fyrir leghálskrabbameini. Á Hólmavík og í Búðardal er ekki starfandi ljósmóðir en þaðan er konum oftast vísað til ljósmóður í Borgarnesi eða á Akranesi undir lok meðgöngu. Foreldrafræðslunámskeið eru haldin reglulega á vegum heilsugæslu HVE Akranesi og sjá ljósmæður um þá fræðslu. Auk þess er sérhæfð brjóstagjafaráðgjöf í boði á Akranesi.

Fæðingarhjálp

Kvennadeild HVE annast fæðingarhjálp umdæmisins en lítið hefur verið um fyrirfram ákveðnar heimafæðingar. Tvennskonar þjónusta fer fram á dag- og legudeild. Á dagdeild leita konur ýmist af eigin frumkvæði eða samkvæmt tilvísun frá heilsugæslustöðvum umdæmisins. Á legudeild er veitt almenn þjónusta og bráðaþjónusta vegna kvensjúkdóma, meðgöngu, fæðinga og sængurlegu.

Ljósmóðir starfandi á Snæfellsnesi skoðar konur í fæðingu áður en þær yfirgefa heimili sitt og fylgir þeim gjarnan á fæðingardeild á Akranesi. Sé fæðing langt komin og sýnt að ekki náist á fæðingardeild, tekur ljósmóðir á móti í heimabyggð. Árlega fæða um fimm konur í umdæminu óvænt heima hjá sér eða á leið á fæðingardeild.

Færst hefur í vöxt að konur búsettar á höfuðborgarsvæðinu kjósi að fæða á HVE Akranesi (25-30% allra fæðinga á HVE). Svo til allar þessar konur útskrifast heim innan 36 klst. og þiggja heimaþjónustu ljósmóður á höfuðborgarsvæðinu.

Sængurlega

Í ljósi þess að umdæmið er víðfemt hafa ljósmæður HVE lagt áherslu á að konur hafi val um að liggja sængurlegu, en um 20-25% þeirra koma langt að og hafa ekki kost á heimaþjónustu ljósmóður í sinni heimabyggð. Sífellt fleiri konur búsettar á Akranesi og í nærsveitum útskrifast nú innan 36 klst. frá fæðingu og njóta heimaþjónustu ljósmóður eða um 30% kvenna.

 

Heilbrigðisstofnun Vesturlands