Saga Ljósmæðranámsins

Upphaf skipulagðrar ljósmæðrakennslu hér á landi má rekja til erindisbréfs Bjarna Pálssonar fyrsta landlæknis á Íslandi, sem skipaður var í embætti árið 1760. Hann var fyrsti kennari íslenskra ljósmæðra og í erindisbréfi hans er þess atrax getið að kenna eigi ljósmæðrum vísindi.
Saga ljósmæðra á Íslandi sýnir glöggt að ljósmæður hafa alla tíð barist fyrir bættri menntun stéttarinnar í samræmi við breyttar aðstæður og kröfur í þjóðfélaginu.

Merk tímamót og breytingar á inntökuskilyrðum og námi ljósmóðurfræði á Íslandi frá árinu 1761

Árið 1760 fól Danakonungur Bjarna Pálssyni landlækni, með embættisbréfi, að “taka eina eða fleiri siðsamar konur og veita þeim tilhlýðilega fræðslu í ljósmóðurlist og vísindum”. Árið 1761 var ráðin ljósmóðir frá Danmörku, Margrethe Katrine Magnússen, til að sjá um klíníska kennslu. Fyrsta ljósmóðurpróf, sem skráð er á Íslandi tók Rannveig Egilsdóttir að Staðarfelli á Fellsströnd, árið 1768.

Árið 1809 skrifaði Maddama Malmquist ljósmóðir í Reykjavík Jörundi hundadagakonungi bréf og kvittar fyrir skipun um að taka að sér kennslu ljósmæðranema. Hún leggur til að stúlkur komi úr hverri sýslu og læri í Reykjavík áður en þær séu skipaðar umdæmisljósmæður. Af þessu varð ekki.

Árið 1875 Yfirsetukvennalög, fyrstu lög ljósmæðra tóku gildi 1875. Námstími var 3 mánuðir. Kennarar og prófdómarar voru landlæknir og héraðslæknar í kaupstöðum:Stykkishólmi, Ísafirði, Akureyri og Eskifirði.

Árið 1895 tóku ljósmæður próf annað hvort í Kaupmannahöfn eða hjá kennara læknaskólans í Reykjavík, sem jafnframt kenndi yfirsetukvennafræði, var forstöðumaður skólans og landlæknir.

Árið 1909 í tíð Guðmundar Björnssonar landlæknis var námstíma breytt í 6 mánuði,

Árið 1911 var Háskóli Íslands stofnaður, þá kom til álita að kennsla ljósmæðra yrði í læknadeild.

Árið 1912 var Yfirsetukvennaskóli Íslands stofnaður. Inntökuskilyrði voru efirfarandi: lágmarksaldur 18 ár, hámarksaldur 36 ár, óspillt siðferði, læknisvottorð um líkamlegt heilbrigði, auk þess að vera fulllæsar og skrifandi.

Árið 1924 voru samþykkt ný lög um skólann og starfsheitið ljósmóðir kemur fram. Inntökuskilyrðum var breytt þannig að aldurstakmark varð 22-35 ár. Fjöldi nemenda var takmarkaður við 10-12 á ári. Námstími var lengdur í 9 mánuði.

Árið 1930 tók Landsspítalinn tók til starfa og var skólinn þá fluttur þangað svo og verkleg kennsla.

Árið 1932 voru samþykkt ný lög og reglugerð um skólann, sem giltu í 32 ár. Skólinn var skírður Ljósmæðraskóli Íslands og yfirlæknir og yfirljósmóðir urðu aðalkennarar. Námstíminn var lengdur í 1 ár.

Árið 1940 lagði stjórn Ljósmæðrafélags Íslands til að lögum um skólann yrði breytt og námstíminn lengdur í 2 ár. Auk þess var lagt til að lögboðin námskeið yrðu fyrir eldri ljósmæður.

Árið 1964 voru ný lög um skólann samþykkt Yfirlæknir fæðingardeildar varð skólastjóri og yfirljósmóðir aðalkennari. Skólinn var 2 ár og tilheyrði áfram Heilbrigðisráðuneyti og var í tengslum við fæðingardeild Landsspítala þrátt fyrir að Ljósmæðrafélagið vildi færa skólann undir Menntamálaráðuneytið.
Við útskrift fyrsta hóps ljósmæðra eftir að ný lög voru samþykkt, talaði yfirljósmóðir um að lengja þyrftir skólann um eitt ár í viðbót, en skólinn í Danmörku var 3 ár.

Árið 1972 voru sett lög um Nýja hjúkrunarskólann og var ljósmæðrum gefinn kostur á að ljúka hjúkrunarnámi á 2 árum og 2 mánuðum.

Árið 1980 voru inntökuskilyrði í ljósmóðurnám: aldurstakmark 20-30 ár, gott líkamlegt og andlegt heilbrigði, gagnfræðapróf eða hliðstæð menntun, góð einkunn í íslensku, dönsku og stærðfræði. Umsækjendur, sem hlotið höfðu meiri menntun og þeir sem ætluðu að þjóna ákveðnu héraði, þar sem þörf var fyrir ljósmóður, gengu fyrir. Nefnd var skipuð af Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að endurskoða lög um Ljósmæðraskóla Íslands. Í henni voru fulltrúar frá skólanum og Ljósmæðrafélagi Íslands.

Árið 1982 er ákveðið í reglugerð að heilbrigðisráðherra ákveði inntökuskilyrði í Ljósmæðraskóla Íslands og frá og með haustinu er inntaka bundin því skilyrði að umsækjendur hafi lokið prófi í hjúkrunarfræði. Meginforsendur fyrir þeirri breytingu voru þær að ljósmæðranám á Íslandi var langt á eftir því sem var að gerast í kring um okkur en t.d. á Norðurlöndum var hjúkrunarpróf undanfari ljósmóðurnáms nema í Danmörku. Krafa hafði verið í mörg ár um að bæta menntun ljósmæðra og eina leiðin sem var fær þá var þessi. Einnig vildu ljósmæður geta starfað á breiðari grunni innan heilbrigðisþjónustunnar en starfsleyfi þeirra gaf tilefni til.

Árið 1983 er síðan frumvarp lagt fram á Alþingi, þar sem gert er ráð fyrir að hjúkrunarfræði sé inntökuskilyrði og að skólinn verði áfram undir Heilbrigðisráðuneytinu. Kveðið var á um að skólastjóri skólans væri annað hvort fæðingarlæknir eða ljósmóðir með BS próf í hjúkrunarfræði. Frumvarpið var ekki afgreitt.

Árið 1986 lagði ný nefnd á vegum Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fram tillögur að frumvarpi þar sem gert er ráð fyrir að skólastjóri eigi að vera ljósmóðir með BS próf í hjúkrunarfræði. Þetta frumvarp var ekki lagt fram.

Árið 1989 sendi menntamálaráðuneyti bréf til Háskóla Íslands árið 1989, þar sem leitað er til námsbrautar í hjúrkunarfræði í samráði við Ljósmæðraskóla Íslands um hugsanlega tilhögun ljósmæðramenntunar innar hennar vébanda.

Árið 1990 sendi námsbraut greinargerð til menntamálaráðuneytis. Í framhaldi af því var nefnd skipuð af menntamálaráðuneyti til að undirbúa tillögur um tilhögun ljósmæðranáms innan námsbrautar í hjúkrunarfræði. Lögð er áhersla á að ljósmóðurnám verði framhald af hjúkrunarfræði.

Árið 1993 var önnur nefnd skipuð til að gera tillögur um flutning ljósmæðramenntunar frá heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneyti til menntamálaráðuneytis. Hún skilaði áliti árið 1994. Ákveðið var að inntökuskilyrði yrði áfram hjúkrunarfræðipróf en einnig var lögð fram tillaga um að athugaður yrði sá möguleiki að samþætta grunnnám í ljósmóðurfræði við nám í hjúkrunarfræði og þar með að stytta námstímann.

Árið 1994 voru lög um Ljósmæðraskóla Íslands frá 1964 lögð niður og síðasta útskrift úr Ljósmæðraskóla Íslands fór fram um haustið.

Árið 1995 berst bréf frá menntamálaráðherra til rektors Háskóla Íslands, þar sem þeim tilmælum er beint til Háskólans að á vegum námsbrautar í hjúkrunarfræði verði menntun ljósmæðra undirbúin með það fyrir augum að kennsla hefjist í janúar 1996. Ný námskrá í ljósmóðurfræði var samþykkt á fundi námsbrautarstjórnar í hjúkrunarfræði í desember 1995. Inntökuskilyrði var áfram ákveðið próf í hjúkrunarfræði.

Árið 1996, 15. janúar,hófst nýtt nám í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands og ljósmæður tóku sjálfar að sér að stýra námi sínu sem er ein af forsendum þess að stéttin sé skilgreind sem fagstétt. Fyrstu ljósmæður frá H.Í. útskrifuðust 1998.

Árið 2003 voru 5 ár frá fyrstu útskrift ljósmæðra við Háskóla Íslands

Árið 2006 eru 10 ár frá því nám í ljósmóðurfræði hófst við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og útskrifast hafa 70 ljósmæður. Námsskrá í ljósmóðurfræði er í endurkoðun og ætlunin er að kanna kosti þess að taka nemendur beint inn í ljósmæðranám og námskeið yrðu að hluta með hjúkrunarnámi. Það tæki styttri tíma að verða ljósmóðir, með möguleika á að bæta við sig námi til að ljúkja hjúkrunarprófi. Inntökuskilyrði og lengd ljósmóðurnáms hafa eðlilega breyst í tímans rás og bæði faglegar og samfélagslegar breytingar hafa haft þar áhrif. Af tæplega 250 ára sögu ljósmæðramenntunar á Íslandi hefur hjúkrunarpróf hefur verið inntökuskilyrði í tæplega 25 ár.