Ljósmæðranámið

Skipuleg kennsla í ljósmóðurfræði hefur verið á Íslandi frá árinu 1761. Árið 1996 var nám í ljósmóðurfræði fært til Háskóla Íslands. Síðan þá hefur náminu lokið með embættisprófi (candidate obstetriciorum) en haustið 2019 tekur gildi ný námskrá og mun náminu þá ljúka með meistaragráðu til starfsréttinda.

Inntökuskilyrði eru BS próf í hjúkrunarfræði og Íslenskt hjúkrunarleyfi, auk tveggja forkröfunámskeiða sem kennd eru á 4. ári grunnnáms í hjúkrunarfræði (HJÚ712G Kynheilbrigði, HJÚ815G konur, heilsa og samfélag). Fjöldatakmörkun er í námið og eru 12 nemendur teknir inn á ári.

Námið skiptist í 63 eininga fræðilegt nám, með 30 eininga meistaraverkefni, og starfsþjálfun sem metin er til 57 eininga. Klínísk starfsþjálfun fer fram á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, á fæðingarstofu og í heimahúsum.

Frekari upplýsingar um nám í ljósmóðurfræði á Íslandi er að finna á vef Háskóla Íslands.