Alþjóðasiðareglur ljósmæðra

Formáli

I.Samskipti ljósmæðra

II. Starf ljósmæðra

III. Faglegar skyldur ljósmæðra

IV. Endurmenntun ljósmæðra

Um Alþjóðasiðareglur ljósmæðra

A. Hvað eru siðareglur

B. Afhverju siðareglur

C. Hvaða gagn er að siðareglum

D. Siðareglur

E. Hvers er krafist af siðareglum

F. Hvernig er hægt að nota siðareglur

 

Formáli
Hlutverk Alþjóðasambands ljósmæðra (ICM) er að efla þá umönnun sem konum, börnum og fjölskyldum stendur til boða í heiminum í dag með því að stuðla að menntun ljósmæðra, þróun og viðeigandi hagnýtingu á störfum þeirra. Í samræmi við það meginmarkmið að ljósmóðir skal stuðla að bættri heilsu kvenna, leggur Alþjóðasamband ljósmæðra til eftirfarandi siðareglur til leiðbeiningar við menntun, störf og rannsóknir ljósmæðra. Þessar siðareglur virða konur sem persónur, stuðla að réttlæti fyrir alla og sanngjarnri dreifingu gæða í heilbrigðisþjónustu. Siðareglurnar byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu og á þeirri meginhugsun að sérhvern einstakling beri að virða sem manneskju.

I. Samskipti ljósmæðra
Ljósmæður virða rétt kvenna til að taka upplýstar ákvarðanir og stuðla jafnframt að því að konur taki ábyrgð á afleiðingum eigin ákvarðana.
Ljósmæður vinna með konum og styðja rétt þeirra til að taka virkan þátt í öllum ákvörðunum er lúta að umönnun þeirra. Ljósmæður hvetja konur til að taka þátt í allri umræðu sem á sér stað í samfélagi þeirra um málefni er varða heilsugæslu kvenna og fjölskyldna þeirra.
Ljósmæður starfa ásamt öðrum konum með heilbrigðisyfirvöldum að því að skilgreina þá heilbrigðisþjónustu sem konur hafa þörf fyrir og þær leitast við að tryggja að þeim gæðum sem standa til boða sé réttlátlega skipt með tilliti til forgangs í heilbrigðisþjónustu og aðgangs að henni.
Ljósmæður styðja og styrkja hverja aðra í störfum sínum sem ljósmæður og efla sjálfsvirðingu annarra ljósmæðra sem og sína eigin.
Ljósmæður starfa með öðru fagfólki í heilbrigðisþjónustu og leita stuðnings annarra eða vísa á aðra sérfræðinga þegar þörf konu fyrir umönnun verður ekki sinnt af ljósmóðurinni einni.
Ljósmæður eru sér meðvitaðar um flókin samskipti fagfólks í heilbrigðisþjónustu og þær gera sér ávallt far um að greiða úr óhjákvæmilegum árekstrum.

II. Starf ljósmæðra
Í umönnun sinni fyrir konum og fjölskyldum þeirra virða ljósmæður sjónarmið ólíkra menningarheima en reyna jafnframt að útrýma heilsuspillandi aðferðum er þar eru viðhafðar.
Ljósmæður styrkja raunhæfar væntingar kvenna um barnsburð í þeirra eigin samfélagi, þó skal þess ætið gætt að engin kona hljóti skaða af getnaði eða barnsburði.
Ljósmæður nota fagþekkingu sína til að tryggja að öruggum aðferðum sé beitt við fæðingar undir öllum kringumstæðum og í öllum þjóðfélögum.
Ljósmæður leitast við að sinna sálrænum, líkamlegum, tilfinningalegum og andlegum þörfum kvenna sem til þeirra leita, hverjar svo sem aðstæður þeirra kunna að vera.
Ljósmæður leitast við að vera öðrum fagmönnum og fjölskyldum fyrirmyndir um eflingu heilbrigðis kvenna á öllum aldri.
Ljósmæður leitast ævinlega við að efla persónulegan, vitsmunalegan og faglegan þroska sinn sem ljósmæður.

III. Faglegar skyldur ljósmæðra
Ljósmæður viðhalda trúnaði gagnvart skjólstæðingum sínum og virða rétt þeirra til einkalífs. Þær beita dómgreind sinni í allri meðferð trúnaðarupplýsinga.
Ljósmæður eru ábyrgar fyrir ákvörðunum sínum og athöfnum og bera ábyrgð á niðurstöðum er tengjast umönnun þeirra.
Ljósmæður geta neitað að taka þátt í störfum sem ganga þvert gegn dýpstu siðferðilegu sannfæringu þeirra. Áherslan á samvisku einstaklingsins má hins vegar ekki verða til þess að konum sé meinaður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.
Ljósmæður taka þátt í þróun og útfærslu þeirrar heilbrigðisstefnu er stuðlar að bættri heilsu kvenna og fjölskyldna sem von eiga á barni.

IV. Endurmenntun ljósmæðra
Ljósmæður tryggja að rannsóknir og önnur starfsemi er miðar að því að efla fagþekkingu þeirra virði ávallt réttindi kvenna sem persóna.
Ljósmæður efla og miðla fagþekkingu sinni með margvíslegum hætti svo sem með rannsóknum og faglegum umsögnum um störf starfssystkina.
Ljósmæður taka þátt í formlegri menntun ljósmæðranema og annarra ljósmæðra.

Um Alþjóðasiðareglur ljósmæðra
Hér á landi eins og annars staðar í veröldinni hafa ljósmæður starfað í mörg hundruð ár og mikið til af heimildum um það.
1761 hefst hér á landi formlegt nám ljósmæðra og fyrstu lög um Ljósmæðraskóla Íslands koma 1912.
Fram til ársins 1875, en þá eru sett yfirsetukvennalög, hafa birst konunglegar tilskipanir og auglýsingar um störf ljósmæðra.
Starfs og fagvitund íslenzkra ljósmæðra byggir því á gömlum grunni.
Þjónusta sú sem ljósmæður veita er mæðravernd á meðgöngu, í fæðingu og í sængurlegu ásamt foreldrafræðslu.
Umhyggja ljósmæðra felur í sér það að tryggja/stuðla að því að konur og ófæddur einstaklingur komi sálfélags og lífeðlisfræðilega sem bezt út úr meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Ennfremur þurfa ljósmæður að geta leiðbeint um heilbrigði og heilbrigðgishvetjandi atferli.
Með þetta að leiðarljósi lagði aðalstjórn ICM þá tillögu fyrir aðildarfélög sín að vinna að sameiginlegum siðareglum fyrir allar ljósmæður.
Á vinnufundum í Vancouver 1986, í Haag 1987 og á Spáni 1991 var lagður grunnur að og unnið að siðareglum þeim sem hér verða kynntar. Þessar reglur voru samþykktar á Alheimsþingi ljósmæðra í Vancouver 6 maí 1993.
Í allri þessari vinnu var lögð rík áherzla á að siðareglurnar tækju tillit til og mið af hinum mismunandi þjóðfélagsgerðum, kynþáttum, trúarbrögðum og menningarlegu umhverfi sem ljósmæður koma frá og starfa í.
Áherzla var lögð á að reglurnar væru á skiljanlegu máli sem fæli í sér virðingu fyrir öllum þessum þáttum.

A. Hvað eru siðareglur.
Opinber yfirlýsing um gildismat og trú ákveðins faghóps eða hvað ljósmæður sjálfar skilgreina sem siðferðilegt athæfi í sínu fagi.
Gömlu siðareglurnar.
Lög og reglugerðir innihéldu oft vísi að því hvernig umhverfið skilgreindi ljósmæður, sbr. í handbókum presta frá 1826 og 1852 stóð skýrum stöfum að ljósmæður skyldu hjálpa fátækum fyrir Guðs sakir, en þær ættu rétt á sanngjarnri greiðslu hjá þeim efnameiri.

B. Af hverju siðareglur.
Siðareglur geta skilgreint ljósmæðrafagið fyrir þeim sjálfum og almenningi.
Hröð framþróun í tækni og í samfélaginu almennt krefst siðrfæðilegrar umfjöllunar, sbr tæknifrjóvganir, genaflutningur, fyrirburafæðingar, forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu, o.s.frv. o.s.frv.

C. Hvaða gagn er að siðareglum
Gefa leiðbeiningar um faglega framkomu og hin mórölsku má og má ekki í daglegu lífi. Þessi siðfræðilegu má og má ekki stjórna hegðun/atferli ljósmæðra í samskiptum þeirra við einstaklinga, stofnanir og veröldina.
Gefur ramma sem auðveldar ljósmæðrum siðfræðilegar ákvarðanir í umfjöllun um ákveðin mál.

D. Siðareglur 

  • Geta ekki tryggt hámarksgæði í þjónustu eða góðar ákvarðanir í ljósmæðraþjónustu.
  • Geta ekki sagt hvernig á að taka siðfræðilegar ákvarðanir eða hvað á að gera við ákveðnar aðstæður.
  • Geta ekki tekið frá okkur gleðina, ábyrgðina eða sársaukann við það að vera til og taka á lífinu.

E. Hvers er krafist af siðareglum
Aðalkrafan við notkun siðareglna sem fagaðili er sú skuldbinding að hugsa "gagnrýnið". Getan/viljinn til að taka ákvarðanir, að vilja gera það sem rétt er fyrir skjólstæðing á "réttum" forsendum og taka um leið ábyrgð á eigin ákvörðunum og gerðum. Ásamt skilningi á eigin gildum og annarra.

F. Hvernig er hægt að nota siðareglur.

  • Í daglegri vinnu, sem tæki til viðmiðunar við daglegar ákvarðanir í þjónustu til skjólstæðinga, t.d. við að finna valkost sem er "góður" fyrir konur eða kemur í veg fyrir skaða. Hægt að nota við rökstuðning sem málsvari kvenna.
  • Í námi sem kennslutæki við að hjálpa nemendum að skilja hvað það er að vera:
    • málsvari kvenna
    • starfa skv. siðferðilegu gildismati
    • Skilja og greina gildismat ljósmæðrafagsins.
    • Við stjórnun, er hægt að nýta þær til að skapa vinnuumhverfi sem auðveldar ljósmæðrum að vinna skv. reglunum. 
    • Við rannsóknir.