Ljósmóðir

Ljósmóðir er einstaklingur, sem lokið hefur námi í ljósmóðurfræði sem er viðurkennt í því landi sem það var stundað. Hún hefur lokið náminu með viðunandi vitnisburði og hlotið leyfi viðkomandi yfirvalda til að stunda ljósmæðrastörf.
 
Ljósmóðir er ábyrgur fagaðili sem í samráði við konur veitir nauðsynlegan stuðning, umönnun og ráðgjöf til kvenna á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu, stundar fæðingarhjálp á eigin ábyrgð og annast nýbura og ungbörn. Þessi umönnun felur í sér fyrirbyggjandi aðgerðir, stuðning við eðlilegt ferli fæðingar, greiningu á frávikum hjá móður og barni, milligöngu um læknishjálp eða aðra viðeigandi meðferð og veitir bráðahjálp.
 
Ljósmóðir gegnir mikilvægu hlutverki í heilbrigðisfræðslu og ráðgjöf ekki aðeins fyrir konur, heldur einnig fyrir fjölskylduna og þjóðfélagið í heild. Í hlutverki ljósmóður felst fræðsla á meðgöngu, undirbúningur fyrir foreldrahlutverkið, einnig fræðsla um heilbrigði og kynheilbrigði kvenna ásamt umönnun barna.

Ljósmóðir getur starfað hvar sem er, meðal annars í heimahúsum, úti í samfélaginu, á sjúkrahúsum, á stofum eða á heilsugæslustöðvum.
 
Samþykkt af Alþjóðasamtökum ljósmæðra ICM á fundi í Brisbane, Ástralíu19. júlí, 2005.