Barneignarþjónusta á Íslandi 2010 - uppbygging og framtíðarsýn á breytingatímum

Barneignarþjónusta á Íslandi 2010 - uppbygging og framtíðarsýn á breytingatímum

Miklar breytingar hafa orðið á barneignarþjónustu á Íslandi síðustu áratugi. Stærstu breytingarnar eru stytting sængurlegu á stofnunum þar sem um það bil 80% sængurkvenna þiggja heimaþjónustu ljósmæðra. Fæðingarstöðum hefur fækkað, heilsugæslan hefur í auknum mæli komið að meðgönguvernd og sinnir nú allri meðgönguvernd heilbrigðra kvenna en sjúkrahús nú eingöngu áhættumeðgönguvernd. Ýmis þjónustuform hafa verið þróuð þar sem áhersla er lögð á samfellda þjónustu ljósmæðra við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu, í sængurlegu og í mörgum tilvikum ung- og smábarnavernd. Þess ber einnig að geta að heimafæðingum hefur fjölgað síðasta áratuginn, úr 0,1-0,2% fæðinga á árunum 1984-1998 í tæplega 2% fæðinga á landsvísu árið 2009.

Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008, hafa kröfur um sparnað í heilbrigðisþjónustu aukist gífurlega. Í einhverjum tilfellum hefur sparnaður heilbrigðisstofnana leitt til skerðingar á þjónustu við barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra og óttast ljósmæður að öryggi og lagalegum réttindum skjólstæðinga sé ógnað. Heildræna stefnumótun barneignarþjónustu á landinu vantar og hefur Ljósmæðrafélag Íslands ítrekað kallað eftir slíkri vinnu við heilbrigðisyfirvöld.

Félagið vill leggja sitt af mörkum og leggur fram þessa skýrslu sem tekin var saman af Guðlaugu Einarsdóttur formanni LMFÍ og Helgu Sigurðardóttur varaformanni LMFÍ með aðstoð Ólafar Ástu Ólafsdóttur formanns námsbrautar í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands og Hildar Kristjánsdóttur ljósmóður. Tilgangur skýrslunnar er að kortleggja þjónustu ljósmæðra eins og hún er nú og leggja fram tillögur um stefnumótun barneignarþjónustu sem uppfyllir faglegar kröfur um gæði og öryggi. Lykilljósmæður í öllum sjö heilbrigðisumdæmum landsins hafa skilað upplýsingum um barneignarþjónustu á sínu svæði. Haldnir voru fundir um allt land til að ræða framtíðarsýn ljósmæðra um skipulag og gæði þjónustunnar. Lykilljósmæður umdæma voru: Helga Sigurðardóttir LSH, G. Erna Valentínusdóttir HVE, Brynja Pála Helgadóttir Hvest, Jenný Inga Eiðsdóttir HSKrókur, Jónína Salný Guðmundsdóttir og Gunnþóra Snæþórsdóttir HSA, Björk Steindórsdóttir HSu og Jónína Birgisdóttir HSS. Eins kallaði félagið eftir upplýsingum frá framkvæmdastjórum heilbrigðistofnana um framtíðarsýn og fyrirhugaðar breytingar á barneignarþjónustu á upptökusvæði hverrar stofnunar.

Þegar þessi skýrsla er útgefin, liggur fyrir 4 daga gamalt frumvarp til fjárlaga sem kveður á um mun meiri niðurskurð en flestar heilbrigðisstofnanir væntu. Það er von ljósmæðra að þessi skýrsla nýtist til að tryggja barnafjölskyldum þá grunnheilbrigðisþjónustu sem veita ber í heimabyggð, þrátt fyrir mikinn niðurskurð.

 

Barneignaþjónusta á Íslandi 2010 - Uppbygging og framtíðarsýn á breytingatímum PDF