Lýðheilsuþing

Lýðheilsuþing

Norræna lýðheilsuráðstefnan verður haldin á Íslandi þann 23.-25. júní 2020

 

Þrettánda Norræna lýðheilsuráðstefnan verður haldin á Íslandi í lok júnímánaðar 2020. Ráðstefnan er á vegum embættis landlæknis í samstarfi við Norrænar systurstofnanir og verður haldin í Hörpu, hinu glæsilega ráðstefnu og tónleikahúsi okkar Íslendinga. 

Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er „Heilsa og vellíðan fyrir alla – horft til framtíðar“ .

Ráðstefnan er vettvangur þar sem Norðurlöndin koma saman, deila þekkingu og reynslu auk þess að efla fagleg tengsl og samstarf á sviði lýðheilsumála. Norðurlöndin eiga margt sameiginlegt bæði hvað varðar heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi og því eru fjölmörg tækifæri til að læra hvert af öðru. Á ráðstefnunni gefst gott tækifæri til að bera saman aðferðir og kerfi innan lýðheilsu milli landa. Ráðstefnan mun leggja áherslu á góð dæmi og aðferðir sem hafa borið árangur innan Norðurlandanna. Stefnt er að því að þátttakendur geti bætt í verkfærakistu sína tækjum og tólum til að vinna að lýðheilsumálum. Þess verður gætt að ráðstefnan sjálf verði heilsueflandi.

Þrjár höfuðáherslur ráðstefnunnar verða á: Áhrifaþætti heilsu og vellíðanar, stefnumótun lýðheilsu og gagnadrifið lýðheilsustarf.

Ráðstefnan mun renna saman við tíundu Evrópuráðstefnuna um jákvæða sálfræði með einum sameiginlegum ráðstefnudegi. Enn fremur munu þátttakendur eiga kost á því að skrá sig á báðar ráðstefnurnar og fá sérstakan afslátt. Það eru mörg tækifæri sem felast í því að tengja saman svið lýðheilsu og jákvæðrar sálfræði. Vonast er til að þessar ráðstefnur munu byggja sterkari brýr milli þessara fræðasviða. Bæði svið vinna að því að auka vellíðan og lífsgæði með faglegum hætti sem byggja á vísindalegum grunni.

Tekið verður á móti ágripum frá 16. október til 30. nóvember. Við hvetjum fólk til að senda inn ágrip hvort heldur sem það starfar á vettvangi lýðheilsu, við stefnumótun eða innan rannsóknargeirans.

Skráning á ráðstefnuna hefst í desember 2019.

Frekari upplýsingar