1.Höfuðborgarsvæðið

Fæðingarhjálp

Fæðingarþjónusta í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins fer fram í heimahúsi, í Hreiðrinu og á Fæðingardeild LSH. Hreiðrið er fæðingardeild fyrir heilbrigðar konur í eðlilegri meðgöngu sem náð hefur 37 vikum. Fæðingardeildin er stærsta fæðingardeild landsins. Þar er veitt þjónusta við konur með þekkta áhættuþætti í fæðingu eða sérstök vandamál sem krefjast sérhæfðrar umönnunar í fæðingu. Langflestar fæðingar á deildinni eru eðlilegar og þar fæða einnig konur sem vilja eiga kost á mænurótardeyfingu í fæðingu, en tíðni þeirrar deyfingar hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár.

Sængurlega

Flestar konur sem útskrifast heim af Kvennadeild LSH fara snemma heim og þiggja heimaþjónustu ljósmæðra. Sængurlega á Meðgöngu- og sængurkvennadeild er ætluð þeim konum sem farið hafa í keisaraskurð og þeim konum sem hafa vandamál eftir fæðingu sem þarfnast innlagnar.
Brjóstagjafaráðgjöf er einnig veitt á LSH en hún felur í sér sérhæfða fræðslu og ráðgjöf til kvenna á fyrstu vikum eftir fæðingu, bæði á deildum kvennasviðs en einnig út fyrir stofnunina.

Ljósmæðraþjónusta utan stofnana

Viðamesta ljósmæðraþjónusta utan stofnana á höfuðborgarsvæðinu er tvímælalaust heimaþjónusta ljósmæðra í sængurlegu auk þjónustu við heimafæðingar.

Tvö ljósmæðrafyrirtæki eru rekin í umdæminu; Björkin og 9 mánuðir. Einnig eru nokkrar ljósmæður með sjálfstæðan rekstur og bjóða upp á námskeið fyrir verðandi foreldra.

Heimasíður

Kvennadeild LSH

Fæðingarþjónusta á LSH

Björkin

9 mánuðir