Heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins starfrækir 19 heilsugæslustöðvar, 15 innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis (HH) og fjórar einkareknar heilsugæslustöðvar. Fæðingarstaðir umdæmisins eru tveir utan heimafæðinga, það er fæðingarstofa Bjarkarinnar og Fæðingarvakt Landspítala. Í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins sjá ljósmæður alfarið um að taka strok frá leghálsi til skimunar á leghálskrabbameini.
Meðgönguvernd
Ljósmæður veita meðgönguvernd á öllum 19 heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins. Þær sinna ekki eingöngu meðgönguvernd heldur einnig ungbarnavernd, foreldrafræðslu, ráðgjöf og móttöku. Á Göngudeild mæðraverndar LSH fer fram meðgönguvernd fyrir konur með sérstök vandamál á meðgöngu. Þar er einnig starfrækt göngudeildarþjónusta sem konum er vísað til vegna sértækra rannsókna eða vandamála á meðgöngu. Ómskoðanir og sérhæfðar fósturrannsóknir eru gerðar á Fósturgreiningardeild LSH þar sem ljósmæður og fæðingalæknar starfa. Meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítala sinnir konum sem þurfa innlagnar við á meðgöngu.
Fæðingarhjálp
Fæðingarþjónusta í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins fer fram í heimahúsi, á fæðingarstofu Bjarkarinnar og á Fæðingarvakt Landspítala. Hraustum konum í eðlilegri meðgöngu stendur til boða að fæða heima eða á fæðingarstofu Bjarkarinnar. Þá er veitt samfelld þjónusta ljósmæðra frá 34. viku meðgöngu þar til barnið er 7-10 daga gamalt. Fæðingarvaktin er stærsta fæðingardeild landsins. Þar er veitt þjónusta við konur með þekkta áhættuþætti í fæðingu eða sérstök vandamál sem krefjast sérhæfðrar umönnunar í fæðingu. Langflestar fæðingar á deildinni eru eðlilegar og þar fæða einnig konur sem vilja eiga kost á mænurótardeyfingu í fæðingu, en tíðni þeirrar deyfingar hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár.
Sængurlega
Flestar konur sem útskrifast heim af Landspítala fara snemma heim og þiggja heimaþjónustu ljósmæðra. Sængurlega á Meðgöngu- og sængurlegudeild er ætluð þeim konum sem farið hafa í keisaraskurð og þeim konum sem hafa vandamál eftir fæðingu.
Brjóstagjafaráðgjafar eru starfandi á Landspítala og njóta konur sem liggja þar inni góðs af því. Einnig sinna þeir vitjunum í heimahús fyrstu 14 dagana eftir fæðingu.
Ljósmæðraþjónusta utan stofnana
Viðamesta ljósmæðraþjónusta utan stofnana á höfuðborgarsvæðinu er tvímælalaust heimaþjónusta ljósmæðra í sængurlegu auk þjónustu við heimafæðingar.
Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins
Kvennadeild LSH
Fæðingarþjónusta á LSH - Video
Björkin
9 mánuðir
Fæðingarheimili Reykjavíkur