Könnun á umfangi heimaþjónustu ljósmæðra

Könnun á umfangi heimaþjónustu ljósmæðra

Ljósmæðrafélag Íslands stóð fyrir könnun á tímabilinu júní – júlí 2010, þar sem markmiðið var að kanna umfang heimaþjónustu ljósmæðra. Könnunin byggðist á framvikri skráningu upplýsinga þar sem ljósmæður fylltu út sérhönnuð eyðublöð til gagnaöflunar. Þær breytur sem aflað var náðu til ýmissa þátta er varða skipulag og umfang þjónustunnar.

Alls náði könnunin til heimaþjónustu 343 kvenna víðs vegar af landinu þó flestar vitjanir hafi átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu (75%). Niðurstöður voru meðal annars eftirfarandi: Frágangur og umsvif vegna beiðna um heimaþjónustu fór helst fram á morgnanna (50%) og flestar beiðnir voru afgreiddar fyrir kl. 16 á daginn (70%). Ljósmæðurnar höfðu haft kynni af sængurkonunum í 60% tilfella áður en til heimaþjónustu kom. Fjöldi vitjana spannaði frá 1 – 11, meðalfjöldi vitjana var 6,71 og meðaltímalengd hverrar vitjunar 54 mínútur. Frumbyrjur reyndust fá marktækt fleiri og lengri vitjanir en fjölbyrjur (P< 0,001, P<0,05). Í ljós kom að þær konur sem fengu fleiri en 8 vitjanir voru flestar alvarlega veikar að undanskildum konum er fætt höfðu heima. Ef umfang heimaþjónustu ljósmæðra var skoðað út frá tíma kom í ljós að um 30 – 40 % af þjónustunni er veitt utan hefðbundins dagvinnutíma þar sem um 30% vitjana fara fram um helgar, 40% síðdegis eða á kvöldin; 31% símtala eiga sér stað um helgar og 36-42% síðdegis eða á kvöldin. Yfir 80% ljósmæðra gerðu grein fyrir því hvernig þær stóðu að útskrift og í öllum tilfellum utan einu voru veittar skriflegar og/eða munnlegar upplýsingar til ungbarnaverndar.

Niðurstöður könnunarinnar veita ýmsar upplýsingar sem gefa til kynna að umfang heimaþjónustu ljósmæðra einkennist af miklum sveiganleika, ábyrgðarskyldu og faglegu mati ljósmæðra bæði hvað varðar tímaramma og faglegt mat á einstaklingsbundnum þörfum kvenna og fjölskylda fyrir þjónustuna.

Könnun á umfangi heimaþjónustu ljósmæðra - 2010 PDF